Segja má að nýja platan – Trouble In Mind – sem er nýkomin út á þessu ári 2025, sé systurplata Punch enda svipuð að upplagi, þ.e.a.s. sjö frumsamin lög í bland við þrjár sígrænar ábreiður í óvenjulegum útsetningum, þar sem óbeislaður frumkraftur blús-rokksins fær að njóta sín, en þú veist samt aldrei hvað bíður þín handan hornsins.
Svo til að æra óstöðugan, þá skartar gripurinn líka góðum gestum, þremur frábærum tónlistarkonum sem leggja hér gjörva hönd á plóg og færa verkið upp á annan og hærri stall með listfengi sínu og nærveru. Þetta eru þær Bryndís Ásmundsdóttir, söngkona, Brynhildur Oddsdóttir, gítarleikari og Unnur Birna Björnsdóttir, fiðluleikari.
Blágrýtt bílskúrsrokk má kannski nota til lýsa tónlistinni á fyrstu plötu GG blús, Punch, sem kom út vorið 2019.
Hún inniheldur sjö frumsamin lög og þrjár ábreiður þar sem frasaskotin gítarvinna tekst á við óhaminn trommusláttinn og tregaðar sönglínur fljóta yfir ásamt hljóðbrotum og þankagangi úr ýmsum áttum.
Áskorunin fyrir þá Guðmunda var að láta tónlistina heppnast með því að brúka eingöngu trommur, gítar og söng. Virkja andann í hömlum naumhyggjunnar og þeim spilastíl sem þeir höfðu þróað með sér við ábreiðuflutning undanfarna mánaða – Trúir blúshefðinni en samt móttækilegir nútímanum.
Platan skartar líka þremur góðum gestum, þeim Sigurði Sigurðssyni á munnhörpu, Jens Hanssyni á saxófónn og pönk-blús-goðsögninni Michael Dean Odin Pollock, er syngur og semur einn ópus með þeim félögum.
Nokkur lög af plötunni náðu hilli hlustenda og þá sérstaklega Touching The Void, dýnamískur ópus í hressilegu millitempói sem fjallar um upprisuna eftir dvöl í ystu myrkum um stund.