Árið 2019 gáfu þeir tvímenningarnir gáfu út sína fyrstu plötu – Punch – við prýðilegar undirtektir þar sem frasaskotin gítarvinna tekst á við óhaminn trommusláttinn og grípandi sönglínur fljóta yfir og allt um kring, innblásnar af tregafullum enskum textum og litaðir með hljóðbrotum og þankagangi úr ýmsum áttum – Trúir blúshefðinni en samt móttækilegir nútímanum.
Segja má að nýja platan – Trouble In Mind – sem er nýkomin út á þessu ári 2025, sé systurplata Punch enda svipuð að upplagi, þ.e.a.s. sjö frumsamin lög í bland við þrjár sígrænar ábreiður í óvenjulegum útsetningum, þar sem óbeislaður frumkraftur blús-rokksins fær að njóta sín, en þú veist samt aldrei hvað bíður þín handan hornsins.
Á tónleikum eru GG blús annálað fyrir góða stemningu, þar sem leiknar er jöfnum höndum vel valdar blús-rokk-ábreiður genginna kynslóða og eigin ópusar. Hafa þeir margoft stigið á stokk hér og hvar, um borg og bý og meðal annars komið fram á Blúshátíðum í Reykjavík, Hornafirði, Patreksfirði og Borgarnesi við góðan orðstír og koma líka fram reglulega á rokkbúllunni frægu, Dillon á Laugarvegi.